Þegar dagarnir styttast og kuldinn smýgur inn að beini, verða prjónarnir að rólegu arhvarfi – smá stund af hlýju, kyrrð og ró. Það er eitthvað við haustið og veturinn sem kallar á hægari takt og rútínuna góðu.
Kalda loftið, myrkrið og þögnin, sérstaklega þessi sem fylgir fyrsta snjónum – það er eins og allt hægi á sér, verði mýkra og nærveran einhvernveginn dýpri. Kannski er það einmitt þess vegna sem prjónarnir laða okkur að sér á þessum árstíma.
Fyrir mér er prjón næstum eins og hugleiðsla.
Hlýjan, einbeitingin og kyrrðin hjálpa mér að stilla hugann af í daglegu amstri og þegar verkin detta svo af prjónunum – þá fylgir alltaf þessi góða tilfinning. Það er eitthvað við það að skapa eitthvað fallegt, hvort sem það er ætlað öðrum eða sjálfri mér.
Það merkilega er að jafnvel eftir stuttan tíma að prjóna finn ég hvernig hugurinn róast – og líkaminn fylgir á eftir. Prjónarnir minna mig á að stundum þarf maður ekki að gera neitt annað en að sitja, anda og leiða hugann að því sem ég er að gera.
Hráefnavalið er líka stór hluti af gleðinni fyrir mér. Að velja gott garn með réttu eiginleikunum getur skipt miklu máli. Sjálf forðast ég garn með miklum gerviefnum – mér finnst þau ekki anda nógu vel og þau verða fljótt óþægileg í notkun, sérstaklega þegar ég er að elta tvö börn um hvippinn og hvappinn. Ég kýs náttúruleg efni sem ylja, endast og eldast fallega - þú finnur einmitt þannig hágæða garn hér á Garnikó.
Það þarf ekki langan tíma á dag, bara smástund, einn kaffibolla og nokkrar umferðir.
Stundum næ ég aðeins þeirri stuttu stund, stundum næ ég að sitja klukkustundum saman – hvort tveggja er jafn dýrmætt og mikilvægur partur af deginum.
Hvort sem þú prjónar tíu umferðir eða tíu sentímetra í dag – leyfðu því að vera þín stund.
Hlýjan sem þú finnur í prjóninu, finnurðu líka í þér.