Það getur verið smá áskorun að kaupa garn í gegnum netið, sérstaklega þegar maður hefur ekki tækifæri til að snerta og prófa garnið áður. En með smá eftirtekt getur þetta líka verið stórkostlega skemmtilegt! Hér eru nokkur ráð sem hafa hjálpað mér þegar ég vel garn í netverslunum:
Leitaðu innblásturs
Þegar þú ert með uppskrift sem þér langar að prjóna er auðvelt að nota bara garnið sem er uppgefið í uppskriftinni. En stundum langar mann að prófa eitthvað annað – þá er snilld að kíkja á hvað aðrir hafa notað í tiltekinni uppskrift, til dæmis á Ravelry. Þar geturu fengið ótrúlega margar hugmyndir að öðrum görnum og útfærslum sem geta gert flíkina þína alveg einstaka.
Hugsaðu um viðkvæma húð
Ekki gleyma að skoða hvernig garnið hentar húðinni sem nota á flíkina – þótt ég sjálf elski íslensku ullina er hún alls ekki fyrir alla. Sumt garn, eins og mohair, hentar ekki fyrir ungabörn í flestum tilvikum þar sem það getur losnað og endað uppi í munninum á þeim. Að velja rétt garn skiptir máli fyrir þann sem nota á flíkina. það eru alls ekki allir sem vilja akrýl garn og þess háttar.
Prjónaðu prjónfestuprufu
Ef þú ert að nota annað garn en uppskriftin segir til um, þá er algjör snilld að prjóna smá prjónfestuprufu fyrst. Hún sýnir hvort stærðin stemmir eða hvort þú þarft að stækka eða minnka prjónana. Ég verð að viðurkenna að ég er stundum léleg í þessu, en þetta sparar ótrúlega mikinn höfuðverk síðar.
Njóttu upplifunarinnar
Netverslanir opna dyr að stórum og smáum garnframleiðendum frá öllum heimshornum. Að skoða nýja liti, áferð og efni, jafnvel þó þú getir ekki snert garnið strax, er stór hluti af gleðinni. Að velja garn fyrir verkefnið sitt er eins og að velja litina fyrir lítið listaverk – það er hluti af upplifuninni.
Hvaða ráð eða reynslu hefur þú að deila þegar kemur að því að kaupa garn á netinu?